Shot Notes
Síðastliðið haust fékk ég svo heiftarlega lungnabólgu að ég endaði á spítala í 10 daga með sýklalyf í æð og allan pakkan. Eftir það ákvað ég að taka mig taki og koma mér í skárra form og hóf að ganga um Breiðholtið og víðar af miklum móð. En svo kom jólafríið og snjórinn og stutta jólapásan dróst fram í apríl. Það gekk s.s. frekar rólega að sparka mér í gang aftur en svo sá ég auglýsta voráskorun gönguhópsins Vesens og vergangs á Facebook og SÍBS. Ég ákvað að nýta mér það til að pína mig af stað aftur og þó ég hafi ekki komist í allar göngurnar hef ég farið allar leiðirnar þó svo að það hafi stundum verið einn míns liðs nokkrum dögum eftir að hópurinn fór (á samt eina leið eftir). Á laugardaginn var svo lokagangan og var hún farin frá Laugavatnshelli og gengið að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum eftir misgömlum akvegum og göngustígum. Ég var nánast að niðurlotum komin þegar á enda var komið enda gangan rétt tæpir 20 km en hvert skref var þess virði.